Kerlingarfjallavinir
Félagið, markmið og stjórn
Hollvinir Kerlingarfjalla stofnuðu félagið Kerlingarfjallavini í félagsheimili Hrunamanna að Flúðum 12. mars 2013.
Kerlingarfjallavinir eiga það sameiginlegt að vilja hlúa að og vernda náttúru Kerlingarfjalla og stuðla að því að sem flestir geti notið náttúru þeirra í sátt við umhverfið.
Kerlingarfjallavinir ætla sér meðal annars að bæta aðgengi fólks að svæðinu, merkja gönguleiðir, styðja við rannsóknar- og fræðslustarf og vinna að kynningu Kerlingarfjalla sem einstaks áningarstaðar fyrir íslenskt og erlent ferðafólk.
Félagið er opið einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum sem styðja markmið þess.
Stjórn félagsins er fimm manna, þar af eru þrír tilnefndir af Fannborg, rekstarfélagi ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum, Hrunamannahreppi og ótilgreindum náttúruverndarsamtökum.
Við fögnum nýjum félögum – sendið tölvupóst á fjallavinir@fludir.is.
Íris Marelsdóttir sjúkraþjálfari er formaður Kerlingarfjallavina. Hún hefur um árabil verið virk í Hjálparsveit skáta í Kópavogi.
Aðrir stjórnarmenn Kerlingarfjallavina:
Borgþór Vignisson í Auðsholti í Hrunamannahreppi, formaður Björgunarfélagsins Eyvindar.
Friðrik Stefán Halldórsson bankamaður í Reykjavík og einn stofnenda ferðaklúbbsins 4x4, tilnefndur af Fannborg.
Fríða Björg Eðvarðsdóttir, landslagsarkitekt hjá VSÓ ráðgjöf, tilnefnd af Landvernd.
Halldóra Hjörleifsdóttir, varaoddviti Hrunamannahrepps.
Stjórn Kerlingarfjallavina. Frá vinstri: Fríða Björg Eðvarðsdóttir, Friðrik Stefán Halldórsson, Íris Marelsdóttir, Borgþór Vignisson, Halldóra Hjörleifsdóttir.
Félagssamþykktir
Samþykktir Kerlingarfjallavina, samþykktar á stofnfundi á Flúðum 12. mars 2013
1. grein
Samtökin heita Kerlingarfjallavinir og eru hollvinasamtök Kerlingarfjalla.
2. grein
Heimili samtakanna og varnarþing er að Akurgerði 6, 845 Flúðum.
Stjórn samtakanna, eins og hún er skipuð á hverjum tíma, skal sjá til þess að heimili samtakanna sé rétt skráð.
3. grein
Kerlingarfjallavinir eru frjáls samtök einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana.
Markmið samtakanna eru að
hlúa að og vernda náttúru Kerlingarfjalla.
stuðla að því að sem flestir geti notið náttúru svæðisins.
bæta aðgengi almennings að svæðinu og bæta ferðamannaaðstöðu án þess að ganga á náttúru svæðisins. Í þessu fellst m.a. að merkja, viðhalda og bæta gönguleiðir og göngubrýr á svæðinu.
afla fjár til að viðhalda gönguleiðum, styðja við rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf um Kerlingarfjallasvæðið.
stuðla að uppbyggingu gönguleiða og merkinga á svæðinu og að bæta aðgengi almennings.
efla fræðslu og rannsóknir á Kerlingarfjallasvæðinu.
beita áhrifum sínum til að efla samkennd um mikilvægi Kerlingarfjallasvæðisins fyrir nærliggjandi byggðir og alla landsmenn.
stuðla að áframhaldandi samvinnu við bændur á svæðinu til hefðbundinnar nýtingar, svo sem beitar.
vinna að kynningu Kerlingarfjalla sem áningarstaðar fyrir bæði innlenda og erlenda ferðamenn.
hvetja hina ýmsu sjálfboðaliðahópa til þátttöku í ýmsum umhverfisverkefnum á svæðinu.
4. grein
Stjórn samtakanna skal skipuð fimm einstaklingum, kjörnum úr hópi félagsmanna á aðalfundi til tveggja ára í senn.
Í stjórninni skal ávallt vera einn fulltrúi frá rekstraraðilum á svæðinu, Hrunamannhreppi og frá náttúruverndarsamtökum.
Einnig skal kjósa varamenn í stjórn fyrir hvern stjórnarmann og einn skoðunarmann reikninga til tveggja ára.
Stjórn skipar með sér verkum: formaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur.
Formaður boðar til stjórnarfunda þegar þurfa þykir eða þegar tveir stjórnarmenn óska þess.
Stjórnarfundir eru ályktunarfærir ef meirihluti stjórnar mætir. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.
Í verkahring stjórnar er að vinna að markmiðum samtakanna og m.a að
halda aðalfund.
varðveita félagaskrá samtakanna.
innheimta og ráðstafa árgjöldum, fjárframlögum og öðrum tekjum sem samtökin afla.
gera félagsmönnum kleift að fylgjast með og eiga hlutdeild í starfsemi samtakanna.
5. grein
Aðalfund skal halda í mars ár hvert. Til hans skal boðað með tryggilegum hætti með a.m.k 7 daga fyrirvara. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi nema annað sé sérstaklega tekið fram í samþykktum þessum.
Allir skráðir félagar í samtökunum, sem greitt hafa árgjald, eiga rétt á setu á aðalfundi.
6. grein
Á ársfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Endurskoðaður ársreikningur.
3. Starfs- og rekstraráætlun næsta starfsárs.
4. Ákvörðun um árlegt félagsgjald.
5. Lagabreytingar.
6. Kosning til stjórnar og varastjórnar
7. Kosning skoðunarmanns
8. Önnur mál.
7. grein
Félagsfundi skal boða svo oft sem þurfa þykir og er stjórninni skylt að efna til þeirra ef fjórðungur félagsmanna fer fram á það og tilgreinir fundarefni. Félagsfundi skal boða með tryggilegum hætti með 7 sólahringa fyrirvara hið skemmsta.
Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
8. grein
Fundum skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ef ágreiningur verður um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri en skotið getur hann ágreiningsefni undir atkvæði fundarmanna.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum nema þar sem öðru vísi kann að vera ákveðið í samþykktum þessum.
9. grein
Samþykktum þessum má aðeins breyta á ársfundi samtakanna, enda hafi tillögur þar að lútandi borist til stjórnar áður en ársfundur er auglýstur og þeirra getið í fundarboði.
Á ársfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega framkomnar tillögur til lagabreytinga, enda feli breytingartillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegar tillögur.
Til þess að lagabreyting nái fram að ganga skal hún hljóta 2/3 greiddra atkvæða. Um leið og samþykkt er breyting á lögum þessum skal ákveðið með fundarsamþykkt hvenær breytingin tekur gildi.
10. grein
Ef áformað er að slíta samtökunum skal það borið undir almennan félagsfund. Skal hann boðaður á sama hátt og aðalfundur og skal í fundarboði greinilega skýrt frá áformum um slit samtakanna.
Ákvörðun um slit þarf að hljóta samþykki minnst 2/3 fundarmanna.
Verði slit samtakanna samþykkt skulu eignir þeirra, ef einhverjar eru, ganga óskiptar til Hrunamannahrepps til uppbyggingar Kerlingarfjallasvæðisins.
11. grein
Samþykktir þessar öðlast gildi þegar þær eru samþykktar á stofnfundi og undirritaðar af stjórn samtakanna.