63 km

Kort og lýsing á hlaupaleið

63 km

Almennar upplýsingar og skyldubúnaður

Allar þrjár hlaupaleiðirnar eru farnar réttsælis og byrja bæði og enda við hótelið í Kerlingarfjöllum.

Heildarhækkun: 2.300 m

Hæsti punktur: 1.120 m

Lægsti punktur: 700 m

Skyldubúnaður:

  • Hlaðinn sími

  • Margnota drykkjarmál

  • Flauta

  • Álteppi

  • Nauðsynlegur sjúkrabúnaður

  • 500 kcal orka

  • Vind- og/eða vatnsheldur jakki með hettu og buxur

  • Fatnaður í samræmi við veður

63 km

Leiðarlýsing

Byrjunin er sú sama og í 22 km hlaupinu. Haldið er frá hótelinu upp Ásgarðshrygg og upp í reykspúandi Hveradali þar sem fyrstu drykkjarstöð leiðarinnar er að finna eftir 5 km hlaup. Svo er haldið upp brattar tröppur og stikum fylgt til norðurs meðfram Ásgarðsgljúfri áður en tekin er góð hægri beygja til austurs, yfir Kerlingarsprænu og upp á göngustíg sem liggur undir tignarlegum Loðmundi, meðfram vegaslóðanum inn í Setur. Þar sem stígurinn víkur frá vegaslóðanum, á 14 km, er drykkjarstöð tvö. Göngustígnum er svo fylgt upp og niður lítil gil að Kisubotnaskála þar sem drykkjarstöð þrjú er staðsett, eftir 22 km hlaup. Þaðan er hlaupið niður í Kisubotna og upp með hrikalegu Kisugljúfrinu, svo sameinast hlaupaleiðin malarvegi allt að Klakkskála þar sem drykkjarstöð fjögur bíður en þá eru búnir um 34 km. Nú er hlaupið undir og á milli þriggja þríhyrndra fella sem heita Klakkur, Grákollur og Svarthyrna að stórbrotnu Kerlingargljúfri og yfir Kerlingarána. Þá tekur við löng hækkun upp með Röðul á vinstri hönd og svo upp í Sléttaskarð á milli Ögmunds og Hattar og niður í Hverabotn. Héðan er haldið niður bratt gil og upp bratta skriðu að Kerlingunni og að drykkjarstöð fimm sem er síðasta drykkjarstöðin, á 55 km. Svo er haldið niður brekku og út á malarveg sem liggur vestan undir Skeljafelli. Hlaupinn er hringur um Skeljafellið og aftur upp í skarðið á milli Kerlingartinds og Skeljafells, yfir Tindabikkju og fremri Ásgarðsá, yfir grýttar Ásgarðsöldurnar, niður Ásgarðshrygginn og niður að endamarkinu við brúna yfir Ásgarðsá, beint fyrir neðan hótelið.

Kort

Hér er hægt að sækja GPX skrá af leiðinni.