60 km
Leiðarlýsing
Byrjunin er sú sama og í 22 km hlaupinu. Haldið er frá hótelinu upp Ásgarðshrygg og upp í reykspúandi Hveradali þar sem fyrstu drykkjarstöð leiðarinnar er að finna eftir 5 km hlaup. Svo er haldið upp brattar tröppur og stikum fylgt til norðurs meðfram Ásgarðsgljúfri áður en tekin er góð hægri beygja til austurs, yfir Kerlingarsprænu og upp á göngustíg sem liggur undir tignarlegum Loðmundi, meðfram vegaslóðanum inn í Setur. Þar sem stígurinn víkur frá vegaslóðanum, á 14 km, er drykkjarstöð tvö. Göngustígnum er svo fylgt upp og niður lítil gil að Kisubotnaskála þar sem drykkjarstöð þrjú er staðsett, eftir 22 km hlaup. Þaðan er hlaupið niður í Kisubotna og upp með hrikalegu Kisugljúfrinu, svo sameinast hlaupaleiðin malarvegi allt að Klakkskála þar sem drykkjarstöð fjögur bíður en þá eru búnir um 34 km. Nú er hlaupið undir og á milli þriggja þríhyrndra fella sem heita Klakkur, Grákollur og Svarthyrna að stórbrotnu Kerlingargljúfri og yfir Kerlingarána. Þá tekur við löng hækkun upp með Röðul á vinstri hönd og svo upp í Sléttaskarð á milli Ögmunds og Hattar og niður í Hverabotn. Héðan er haldið niður bratt gil og upp bratta skriðu að Kerlingunni og að drykkjarstöð fimm sem er síðasta drykkjarstöðin, á 55 km. Svo er haldið niður brekku og út á malarveg sem liggur vestan undir Skeljafelli. Hlaupinn er hringur um Skeljafellið og aftur upp í skarðið á milli Kerlingartinds og Skeljafells, yfir Tindabikkju og fremri Ásgarðsá, yfir grýttar Ásgarðsöldurnar, niður Ásgarðshrygginn og niður að endamarkinu við brúna yfir Ásgarðsá, beint fyrir neðan hótelið.
Á þremur drykkjarstöðum, þ.e. í Hveradölum, undir Loðmundi og við Klakksskála, er boðið upp á vatn, orkuduft, banana, saltstangir og súkkulaði. Á tveimur drykkjarstöðum, þ.e. við Kisubotnaskála og hjá Kerlingu, er aðeins boðið upp á vatn og orkuduft.
Kort