Jarðfræðilegt og menningarlegt mikilvægi
Saga Kerlingarfjalla
Mitt á hálendi íslands, milli Langjökuls og Hofsjökuls, eru Kerlingarfjöll – hringlaga fjallgarður með toppa sem ná allt að 1500 metra hæð innan um ótal dali með gönguleiðum sem bjóða ferðalöngum upp á ógleymanlegar upplifanir í landslagi sem á sér vart sinn líka á Íslandi.
Fjöllin, sem mynduðust í röð eldsumbrota undir jökulhettu fyrir 300.000 árum síðan, taka stakkaskiptum eftir því sem árstíðunum vindur fram. Á sumrin myndar ljóst ríólít-bergið mynstur ásamt ísbreiðum hér og þar, en á veturna eru fjöllin drifhvít ævintýraveröld svo langt sem augað eygir.
Í dalverpum renna jökulkaldar ár um við sjóðandi heita læki frá jarðhitasvæðinu í Hveradölum, svo landslagið ólgar með rjúkandi sprungum, bullandi leirhverum og kraumandi heitum hverum. Breiður af hitakæru plöntulífi vaxa og dafna við þessi óhefðbundnu skilyrði og skreyta svæðið með marglitum þekjum af gróðri.
Kerlingarfjöll héldust með öllu órannsökuð uns ferðafrömuðurinn og náttúruunnandinn Guðmundur Einarsson hóf að fara þangað með hópa í fjallaferðir snemma á fjórða áratug síðustu aldar. Í kjölfarið ákvað Ferðafélag Íslands að reisa þar skála árið 1937 og skipuleggja reglulegar gönguferðir um svæðið.
Árið 1961 hófu landsmenn svo að stunda skíðaiðkun í Kerlingarfjöllum á sumrin og þar með urðu fjöllin að eftirsóttum orlofsstað. Skálahúsnæðið sem risið hafði í Ásgarðsdalnum bætti við sig svefnskála og veitingaaðstöðu fyrir skíðanema. Á hverju ári, frá júní til ágúst, flykktust Íslendingar til Kerlingarfjalla og þúsundir ungmenna lærðu að skíða á sumrin í skíðaskólanum í Kerlingarfjöllum.
Um síðustu aldamót lagðist skíðaskólinn af enda hafði þá snjórinn í fjöllunum hopað svo skíðafæri var helst fyrir fjallaskíði á sumrin. Aftur á móti var byggt við húsakostinn svo úr varð Fjallahótelið í Kerlingarfjöllum sem auk hótelherbergja samanstóð af svefnskálum, tjaldsvæði og veitingastað. Þarna áttu göngugarpar og landkönnuðir Kerlingarfjalla sinn griðastað og skjól, allt til ársins 2020. Árið 2023 var svo Fjallahótelið endurvakið sem Highland Base – Kerlingarfjöll. Þó allur aðbúnaður hafi verið stórbættur og fátt minni á fyrsta skálann sem reistur var af Ferðafélaginu árið 1937 svífur enn andi ævintýra og ókannaðra óbyggða yfir Kerlingarfjöllum og nágrenni.