Gönguleið

Neðri-Hveradalir

Litrík náttúruperla

Eitt virkasta háhitasvæði landsins

Lengd

8 km

Tími

4 klst.

Erfiðleikastig

Almennt: Besti ferðatími er frá júní og fram í september. Neðri-Hveradalir njóta sérstakrar náttúruverndar innan friðlandsins í Kerlingarfjöllum og umferð utan merktra göngustíga er ekki leyfð. Reiðhjól eru bönnuð á þessari leið. Á sumrin er ýmist hægt að keyra eða ganga um 5 km leið frá hótelinu okkar í Ásgarði og að Hveradölum. Á veturna er best að keyra ef færð leyfir og þarf þá að vera á bíl sem er fjórhjóladrifinn og vel búinn til ferðarinnar.

Upphaf og leiðarendi: Bílastæðið ofan við Hveradali.

Vegalengd: 5-8 km, 3-4 klst.

Markverðir staðir: Hverirnir, Hveradalahnjúkur, Kerlingarskyggnir, Snækollur, Loðmundur, Fannborg, gljúfur Jökulfallsins og Snorrahver.

Vað á leiðinni: Alla jafna þarf ekki að vaða á leiðinni en athugið að brýr getur tekið af í leysingum á vorin og þá þarf stundum að vaða Ásgarðsá, sem er þó ekki vatnsmikil.

Mikilvægt: Ekki leggja af stað í göngu án þess að fara yfir þennan gátlista.

Lagt er af stað frá hótelinu í Kerlingarfjöllum og haldið sem leið liggur yfir brúna yfir Ásgarðsá. Þegar komið er yfir ána er merktri gönguleið fylgt upp malarásinn og þaðan á brattann fram hjá Hveradalahnjúki vestan megin. Þetta er falleg gönguleið og ber ferðamanninn upp að Neðri-Hveradölum. Þar er hægt að ganga um þetta kraftmikla og stórbrotna háhitasvæði.

Í góðu veðri er ekki úr vegi að staldra við og horfa í norður því víðsýnt er bæði norður Kjöl sem og vestur yfir Kerlingarfjöll og í átt að Hvítárvatni. Frá þessari leið liggur önnur merkt leið sem tekur okkur hringinn í kringum Mæni. Þessi gönguleið er á færi flestra enda fjölfarin af ferðamönnum sem heimsækja Kerlingarfjöll.