Æfingin
Á laugardag verður æfing og brautarskoðun með þjálfurum Útihreyfingarinnar sem hönnuðu hlaupaleiðir Kerlingarfjöll Ultra. Þátttakendum verður skipt í hópa eftir getustigi, sem hver um sig verður með sinn þjálfara. Skiptingin er eftirfarandi:
Keppendur í 12 km vegalengd í Kerlingarfjöll Ultra hlaupa 5 km
Keppendur í 22 km vegalengd í Kerlingarfjöll Ultra hlaupa 15 km
Keppendur í 60 km vegalengd í Kerlingarfjöll Ultra hlaupa 22 km
Til að geta tekist á við hlaupaleiðina á sem allra bestan hátt þarf að þekkja brekkur, gil, jarðveg, undirlag, ár, læki og allar þær áskoranir sem framundan eru. Á æfingunni verður hlaupið um hringleiðir sem liggja alfarið eða að hluta til eftir keppnisleiðunum sem hlaupnar verða í Kerlingarfjöll Ultra og því kjörið tækifæri til að prófa stígana sem hlaupnir verða á keppnisdag og fækka óvissuþáttum. Njóttu þess að takast á við áskorun hlaupaleiðarinnar á keppnisdag með reynslu og þekkingu á staðháttum í farteskinu.