Okkar Sögur

Saga Kerlingarfjalla: Frumkvöðlar og ferðalangar á fjöllum

Höfundur

Teymið í Kerlingarfjöllum

Dags.

Sep 2, 2025

Lestími

6 mín lestur

Eftir ferðalag um hlykkjótta fjallvegi hálendisins sést fjallgarðurinn Kerlingarfjöll rísa upp úr hásléttunni, 150 ferkílómetrar af hvössum nípum, gljúfrum og jöklum, þar sem hæstu tindar skaga upp í 1500 m hæð yfir sjávarmáli. Ferðalangar sem klífa þar hlíðar og toppa eru verðlaunaðir með mikilfenglegu útsýni yfir víðerni hálendisins og jökulrisana tvo Hofsjökul og Langjökul, ekki síður en litríkar bergmyndanir og gufustróka.  

Fjallasaga 

Saga Kerlingarfjalla er jafn öfgafull og svæðið sjálft og hefur einkennst af forvitni, harmi, ævintýrum og endurreisn. 

Í október 1780 héldu bræðurnir Bjarni og Einar Halldórsson frá Reynisstað yfir Kjöl til að versla með fé, en urðu úti á leiðinni. Fáir atburðir í Íslandssögunni hafa orðið tilefni fleiri þjóðsagna en örlög þeirra og lögðust ferðir um Kjöl af í rúmlega 100 ár eftir þetta. 

Árið 1888, þegar vísindamaðurinn Þorvaldur Thoroddsen og teymi hans hófu könnunarleiðangra í Kerlingarfjöll, beindust augu ferðalanga og frumkvöðla aftur að Kerlingarfjöllum. Leiðangrar þessir leiddu af sér endurbætur á vegum sem ýtti undir aukinn áhuga á svæðinu á ný og með stofnun Ferðafélags Íslands árið 1927 hófst uppbygging á innviðum í Kerlingarfjöllum. 

Ferðafrömuðurinn og náttúruunnandinn Guðmundur Einarsson hóf fjallaferðir með hópa í Kerlingarfjöll snemma á fjórða áratug síðustu aldar. Í kjölfarið ákvað Ferðafélag Íslands að reisa þar skála árið 1937 og skipuleggja reglulegar gönguferðir um svæðið. 

Árið 1961 hófu landsmenn svo að stunda skíðaiðkun í Kerlingarfjöllum á sumrin og þar með urðu fjöllin að eftirsóttum orlofsstað. Á hverju ári, frá júní til ágúst, flykktust Íslendingar í Kerlingarfjöll og mörg þúsund ungmenna lærðu að skíða í skíðaskólanum. Skíðalyftur voru reistar í hlíðum Fannborgarjökuls og Keis og gistiaðstaða á svæðinu bætt með nýjum matsal og svefnsal fyrir nemendur. 

Um síðustu aldamót lagðist skíðaskólinn af enda hafði snjórinn í fjöllunum hopað svo skíðafæri var helst fyrir fjallaskíði á sumrin. 

Eftir daga skíðaskólans var byggt við húsakost á svæðinu svo úr varð Fjallahótelið í Kerlingarfjöllum sem auk hótelherbergja samanstóð af svefnskálum, tjaldsvæði og veitingastað. Lagst var í að auðvelda aðgengi á svæðinu með betri vegum, brúm yfir ár, skiltum og stígum svo náttúruunnendur gætu notið svæðisins við útivist og áttu göngugarpar og landkönnuðir Kerlingarfjalla sinn griðastað og skjól á Fjallahótelinu til ársins 2020. 

Árið 2023 var Fjallahótelið endurvakið sem Hálendismiðstöðin í Kerlingarfjöllum. Nú er hægt er að njóta nútímaþæginda á hálendinu og fátt sem minnir á aðbúnað ferðalanga fyrri alda, en andi ævintýra og orka hálendisins svífur enn yfir svæðinu. 

Jarðsaga 

Fjallgarðurinn Kerlingarfjöll myndaðist fyrir rúmlega 300.000 árum síðan í röð eldsumbrota. Kerlingarfjöll eru að langmestu leyti úr líparíti sem er ljósbrúnt að lit, en yfir því liggur víða grátt basalt. Megineldstöðin Kerlingarfjöll er um 140 km² að flatarmáli og er þar virkt háhitasvæði svo kraftmiklir gufuhverir, leirhverir, laugar og gufuaugu einkenna landslagið. Í tímans rás hafa litríkar útfellingar af gulum brennisteini og hvítum söltum ljáð jörðinni umhverfis háhitasvæðin einkennandi útlit, ásamt ýmsum örverum sem nærast á jarðhitanum, og jarðhitagróðri sem sker sig frá gróðursnauðu umhverfinu.  

Kerlingarfjöll voru friðlýst í heild sinni sem landslagsverndarsvæði af Umhverfisstofnun árið 2020. Markmiðið með friðlýsingunni er verndun hinna merkilegu jarðminja svæðisins og ásýndar þess, landslagsins og óbyggðanna, um leið og henni er ætlað að efla Kerlingarfjöll sem útivistarsvæði. 

Loftslag árið um kring 

Kerlingarfjöll liggja hátt og eru veturnir þar, eins og annars staðar á hálendinu, langir og harðir en sumrin stutt og mild. 

Yfir sumartímann, frá júní fram í ágúst, umbreytist umhverfi Kerlingarfjalla og þegar snjóa leysir kemur litskrúðugt berg og gróskumikill háhitagróður undan snjóbreiðunni. Hitinn á sumrin er á bilinu 10 til 15 gráður, en veðrið á hálendinu er óútreiknanlegt og má búast við kuldaköstum og jafnvel snjókomu allt sumarið. 

Vetrinum fylgir mikill kuldi og strax í september fer að snjóa reglulega, læki leggur og umhverfið öðlast nýjan blæ: snjóbreiður og ís þekja litríkar bergmyndanir og hlíðar.  

Öfgafullt losftslagið í Kerlingarfjöllum dregur fram tilkomumikið samspil náttúruaflanna og minnir stöðugt á magnaðan margbreytileika jarðar. 

Dýralíf og plöntur 

Miðhálendi Íslands er lítt gróið en þar má þó finna harðgerðar plöntur á borð við mosa og fléttur, og æðplöntur sem aðlagast hafa óblíðu umhverfinu, auk þess sem litskrúðugur jarðhitagróður er áberandi í Hveradölum. 

Ekki er mikið um dýr á hálendinu en þar má rekast á ýmsa fugla, helst rjúpu, og tófu, auk farfugla yfir sumartímann. 

Þjóðsögur og munnmæli 

Kerlingarfjöll eru fyrirferðarmikil í þjóðsögum Íslendinga enda hefur hálendið verið ótæmandi uppspretta þjóðsagna og þjóðtrúar. Nafn Kerlingarfjalla er sjálft dregið af 25 metra háum hraunstöpli sem sagður var steinrunnar leifar tröllkerlingar einnar sem reikaði um fjallgarðinn en varð að steini þegar fyrstu geislar sólarinnar náðu henni einn morguninn. Fjöllin hafa lengi verið talin hýsa huldufólk og álfa í björgum og steinum og einnig er sagt að jarðhitasvæðið í Hveradölum líkist Niflheimi, undirheimum norrænna manna, eins og honum er lýst í Snorra-Eddu.

Afþreying og ævintýri 

Fjöllin taka stakkaskiptum eftir því sem árstíðunum vindur fram og bjóða ólíkar árstíðir upp á ólík tækifæri til afþreyingar. 

Á sumrin eru Kerlingarfjöll kjörlendi göngugarpa og ljósmyndara sem vilja þræða stíga um litríkar fjallshlíðar, hveri, og háhitasvæði. Vinsælt er að ganga um Hveradali þar sem finna má eitt virkasta háhitasvæði landsins og umhverfið engu líkt. Á veturna eru snæviþaktir fjallstindar og snjóbreiður leikvöllur hinna ævintýragjörnu sem geta lagt í snjósleðaferðir eða á fjallaskíði og notið ómengaðra myrkurgæða á kvöldin þegar norðurljós leika um næturhimininn. 

Ógleymanlegt ævintýri 

Í Kerlingarfjöllum kristallast öfgar hálendis Íslands í samspili einstakrar jarðfræði, loftslags og sögu og er þar heilsársáfangastaður í hjarta hálendisins þar sem tilkomumikil náttúra er við hvert fótmál. Í hálendismiðstöðinni í Kerlingarfjöllum eiga sér stað ógleymanleg ævintýri þar sem óbeislaðar óbyggðir mæta hlýju, kyrrð og notalegheitum.