Hveradalir liggja í vari innan fjalllendis Kerlingarfjalla, mitt á hálendi Íslands, og eru einstök náttúruperla. Yfirbragð svæðisins tekur stakkaskiptum eftir því sem árstíðunum vindur fram, allt frá ljósu mynstri ríólít-bergsins á sumrin yfir í drifhvítar ísbreiður vetrarins.
Svæðið er á mótum elds og íss og í gegnum tíðina hefur landslagið mótast af eldsumbrotum, jarðhita og ísalögum. Þar má finna raðir sjóðheitra hvera, leirhvera og jarðhitastróka þar sem dáleiðandi andstæður elds og íss mæta litbrigðum og víðáttu hálendisins

Jarðminjar
Kerlingarfjöll eru megineldstöð og Hveradalir eru því afkvæmi frumkrafta jarðar, en dalurinn situr ofan á háhitakerfi sem eitt það heitasta sem mælst hefur á Íslandi. Jarðhitinn leitar upp í gegnum bergið og brýst upp á milli sprungna og mótar þannig landslag sem heillar öll sem á það líta.

Útivist í Hveradölum
Hveradalir eru fagurt jarðhitasvæði sem á fáa sína líka. Fjölmargar gönguleiðir og slóðar liggja frá eða um svæðið þar sem hvert skref mætir stórbrotnu landslagi. Hér er því hlaðborð landkönnuðarins – stöðugt eitthvað nýtt að sjá og upplifa. Eins er í lófa lagið að verja lengri tíma í Kerlingarfjöllum og bæta gönguferðum frá hótelinu við heimsókn í Hveradali. Slíkar gönguferðir eru góð leið til þess að kynnast svæðinu á eigin hraða. Til dæmis má ganga upp Ásgarðsfjall, skoða Skuggafoss og Jökulkrók eða leggja upp Mæni og Kerlingarskyggni, svo fátt eitt sé nefnt. Við bendum öllum göngugörpum, reyndum sem óreyndum, á að kynna sér gátlista fyrir göngur á eigin vegum.
Hægt er að upplifa umhverfi Hveradala á fjölbreyttum hraða, því þó aðstæður til skíðaiðkunar í Kerlingarfjöllum hafi tekið breytingum í gegnum árin er svæðið enn kjörið til margskonar skíðaferða. Hægt er að þjóta um einstakar hlíðar og tinda á fjallaskíðum árið um kring, og er t.d. hægt að skíða Mænisjökul þaðan sem útsýnið er ólýsanlegt. Á veturna er hægt að fara á gönguskíðum um svæðið, og er óvíða hægt að stunda skíðagöngu í jafn mögnuðu umhverfi. Svæðið er eitt örfárra skíðasvæða í heiminum þar sem hægt er að skíða um hlíðar hverasvæðis, og er útsýnið yfir snjóþakta tinda og gufustróka engu líkt.
Draumastaður ljósmyndarans
Andstæður í litum, áferðum og meira að segja jarðgerðum eru draumaviðfangsefni bæði atvinnuljósmyndara og annarra sem heillast af því að fanga augnablik á mynd, enda er dularfull fegurð jarðhitans magnað sögusvið fyrir lífsins minningar. Þú getur tekið nestipakka af hótelinu með þér í ljósmyndatúrinn ef þú vilt og notið þess að næra bæði hug og anda.

Að komast að Hveradölum
Fyrst er að ferðast að hálendismiðstöðinni í Kerlingarfjöllum, eða Highland Base. Þar er hægt að teygja úr sér og draga andann. Að sumarlagi er hægt að keyra í Kerlingarfjöll á einkabíl, bóka rútuferð eða bóka akstur á sérútbúnum bílum. Við kjöraðstæður tekur um þrjá tíma að keyra frá Reykjavík að Kerlingarfjöllum og leiðin er um 200 kílómetrar. Þegar komið er í Kerlingarfjöll er ekki nema 5 kílómetra ganga inn að Hveradölum og er sú leið bæði fögur og auðveld yfirferðar. Einnig er hægt að komast að Hveradölum á fjórhjóladrifnum bíl.

Gisting í nágrenni Hveradala
Þegar góður göngudagur er að kvöldi kominn er nauðsynlegt að hlaða batteríin. Hálendismiðstöðin í Kerlingarfjöllum er kjörin miðstöð fyrir útivistarfólk sem vill njóta hlýju og þæginda steinsnar frá óbyggðum. Hálendismiðstöðin opnaði í núverandi mynd sumarið 2023 og því hefur ferðafólk nú úr fleiri möguleikum að velja þegar sækja á hálendið heim. Hótelið býður fjölbreytta gistingu, allt frá hógværum svefnpokaplássum upp í lúxussvítur. Eins er aðgangur að Hálendisböðunum, sem opnuðu sumarið 2024, innifalinn fyrir gesti hótelsins, en dagsgestir í Kerlingarfjöllum geta einnig keypt aðgang að böðunum.
Hótelið í Kerlingarfjöllum heldur úti dagskrá sem inniheldur bæði stuttar dagsferðir og lengri ævintýraferðir í samstarfi við vana leiðsögumenn. Hægt er að kanna nýjar slóðir fótgangandi eða á rafknúnu fjallahjóli, buggy-bíl eða jafnvel snjósleða á veturna. Hér er því einstakt tækifæri til þess að kanna hálendi Íslands frá þægilegri hálendismiðstöð í faðmi fjallanna.
Heillandi jarðhitasvæði og ómótstæðilegt útsýni – það er allt til alls í Kerlingarfjöllum.
