Okkar Sögur

Gengið um Kerlingarfjöll: Paradís fyrir göngugarpa

Höfundur

Teymið í Kerlingarfjöllum

Dags.

Aug 27, 2025

Lestími

7 mín lestur

Útivist og útivera í stórbrotinni náttúru er afþreying sem er Íslendingum að góðu kunn og óbeislað umhverfi miðhálendisins heillar hvern sem þangað kemur. Kerlingarfjöll voru óárennilegar óbyggðir í augum Íslendinga á öldum áður, en hafa í seinni tíð skapað sér sess sem óviðjafnanlegt útivistarsvæði, hvort sem um er að ræða krefjandi göngur, litríkt háhitalandslagið í Hveradölum eða kyrrðina sem umlykur þig um leið og þéttbýlið verður eftir í baksýnisspeglinum.   

Hvað eru Kerlingarfjöll? 

Hálendið er víðfemt landsvæði sem einkennist af andstæðum. Kerlingarfjöll eru einn kimi þessa magnaða svæðis þar sem háhitasvæði mæta snæviþöktum fjallstindum og fjarlægum jökulbreiðum. Grónir og líflegir dalir hvíla oft í faðmi marglitra líparítfjallanna og þetta umhverfi kyndir sannarlega undir ímyndunarafli þeirra sem sækja staðinn heim. 

Gönguleiðir 

Kerlingarfjöll eru að margra mati eitt besta útivistarsvæði miðhálendisins. Hér eru fjölbreyttar gönguleiðir sem henta bæði vönu og óvönu göngufólki; ýmist langar eða stuttar, krefjandi eða byrjendavænar, með mikilli hækkun eða á flatlendi. Göngur eru dásamleg leið til þess að kynnast svæðinu sem best. Hér er hægt að láta eftir sér að ganga löturhægt um fagran fjallasal eða skora sig á hólm og reyna að sigra krefjandi fjallstinda. Af nægu er að taka. 

Þau sem eru að byrja að fóta sig í gönguferðum geta reynt sig á Ásgarðsfjalli eða Skeljafelli og kannað mildari hliðar Kerlingarfjalla. Þessar gönguleiðir eru nokkuð byrjendavænar og henta nýgræðingum og fjölskyldum mjög vel, sem og þeim sem vilja frekar ganga um í rólegheitum og njóta þess sem fyrir augu ber, enda útsýnið einstakt. 

Þau sem vilja seðja ævintýraþrána geta til dæmis lagt upp Snækoll eða Fannborg. Hér getur göngufólk látið reyna á getu sína og tekist á við síbreytilegt umhverfi og aðstæður. Þau allra ákveðnustu geta bætt aðeins í og notið víðsýnisins frá Hverahnjúki eða lagt á hina fögru Snót. Eins eru Mænir og Kerlingarskyggnir og Skuggafoss og Jökulkrókur sérstaklega verðugar áskoranir og á leiðinni má líta allt frá háhitasvæðum yfir í ísilagt jökullandslag. 

Það er leikur einn að setja saman nokkurra daga gönguferðir. Á meðal spennandi leiða eru Hringbrautin og Ögmundur, Höttur og Röðull. Skálar eru vel staðsettir á leiðunum svo göngufólk geti hvílt sig eða skýlt sér frá veðri og vindum. Einnig er hægt að setja saman einstakar ferðir eftir óskum hvers og eins, hvort sem um er að ræða dagsferðir eða lengri ferðir. 

Krúnudjásn gönguleiða Kerlingarfjalla er án efa leiðin um Hveradali þar sem landslag háhitasvæðisins er í aðalhlutverki. Hveradalir eru í um 5 km fjarlægð frá hálendismiðstöðinni og gangan frá hótelinu er nokkuð auðveld, en töluvert á fótinn. Að sjálfsögðu er líka hægt að aka alla leið að svæðinu. Þau sem vilja spara orkuna geta ýmist ekið að svæðinu og lagt þar sem gönguleiðin byrjar eða bókað sætaferðir frá hótelinu og nýtt kraftana til fulls í Hveradölum. 

Í gegnum Hálendismiðstöðina í Kerlingarfjöllum er hægt að bóka gönguferðir með leiðsögn um stíga og vegi svæðisins. Ferðirnar eru fjölbreyttar og geta verið góð leið til þess að taka af skarið og kynnast hálendi Íslands. Reyndir leiðsögumennirnir hafa unun af því að segja frá svæðinu, sögu þess og landfræði. 

Færð og ferðalag 

Sökum veðurfars og hæðar yfir sjávarmáli þykir best að ganga um Kerlingarfjöll frá júní og fram í september. Hálendið heillar þó allan ársins hring. Sumar gönguleiðir eru raunar opnar yfir vetrartímann líka svo lengi sem göngufólk sé einstaklega vel útbúið og undirbúið. Snjórinn baðar heiminn vissulega í draumkenndum ljóma en getur einnig verið fólki fjötur um fót. Því er mikilvægt að klæðast mörgum lögum af flíkum, velja gönguskó sem ráða jafnt við púðursnjó og hjarn, pakka næringarríku nesti og hafa réttan búnað meðferðis. Göngufólk ætti alltaf að hafa fullhlaðinn farsíma meðferðis. Loks hvetjum við ferðafólk að láta starfsfólk okkar vita ef það heldur í lengri ferðir svo fyllsta öryggis sé gætt. 

Þar sem Kerlingarfjöll eru afskekkt þurfa ferðalangar að skipuleggja ferðalagið til fjalla vel. Nauðsynlegt er að aka um fjallvegi til þess að ná að gistisvæðinu en slíkir vegir eru ekki malbikaðir og oft nokkuð þungfærir. Mikilvægt er því að vera á vel útbúnu og rétt tryggðu ökutæki. Yfir sumartímann er leiðin til fjalla allflestum bílum fær en yfir vetrartímann er nauðsynlegt að vera á fjallajeppa sem er rétt útbúinn. Við bjóðum upp á sætaferðir upp í Kerlingarfjöll allt árið þar sem atvinnuökumenn á sérútbúnum fjallajeppum ferja gesti til fjalla og aftur á láglendið. 

Kerlingarfjöll eru veisla fyrir skilningarvitin og hitta í hjartastað ævintýramennskunnar. Við leggjum mikla áherslu á að gestir og gangandi setji öryggið á oddinn. Ávallt skyldi upplýsa um ferðaáætlanir, bera fullhlaðinn farsíma, sækja kort af svæðinu sem hægt er að nota án nettengingar og jafnvel vera með GPS-tæki. Það er aldrei of varlega farið þegar óbeisluð náttúran er annars vegar. 

Virðing fyrir umhverfinu   

Kerlingarfjöll voru friðlýst sem landslagsverndarsvæði af Umhverfisstofnun árið 2020. Með friðlýsingunni er stefnt að því að vernda jarðminjar svæðisins, hvort sem um er að ræða landslag, jarðfræðilegar menjar, einstakt háhitasvæðið eða óbyggðirnar sjálfar. Fyrir vikið leggjum við mikla áherslu á að virða náttúruna og efla skilning okkar á henni. Við hvetjum alla gesti til þess að gera slíkt hið sama. 

Gisting 

Fjölmargir gistimöguleikar bjóðast í Kerlingarfjöllum og gistisvæðið í Ásgarði er sérstaklega góð bækistöð þegar kanna á þennan kima hálendisins. Þar eru einkaskálar, hótel, svefnskálar og tjaldsvæði og aðstaða til fyrirmyndar. Á hótelinu er afbragðs veitingastaður og Hálendisböðin eru kjörinn viðkomustaður fyrir eða eftir ævintýraferð í náttúrunni. Þessi vin í óbyggðunum er sérstaklega góður áningarstaður og vel staðsettur miðpunktur fyrir hvers kyns ferðir. 

 Hálendið bíður þín  

Þau sem hafa heimsótt hálendið tala gjarnan um sterka upplifun sem hefur áhrif á þau ævina á enda. Hvort sem það er náttúran sem hefur þessi áhrif, landslagið, þögnin eða bara tilfinningin sem fylgir því að feta í fótspor forfeðra sinna skal látið ósagt. En eitt er víst — hálendið er töfrandi staður sem rennur í æðum landans og öll ættu að upplifa að standa í fullkominni þögn langt frá nútímanum einhvern tímann á ævinni.  

Gakktu á vit ævintýranna – árið um kring.